Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Okkur vantar leiðtoga !

"Mig vantar  leiðtoga,  sem segir við heiminn hingað og ekki lengra !

 

Þjóð okkar er í nauðum. Fjármálakerfi hennar er hrunið. Við verðum að grípa  til örþrifaráða varðandi fjármálaviðskipti við umheiminn. Þeir sem ekki eru vinir okkar eru óvinir okkar. Við verðum að komast af án þeirra.

 

Við  munum ekkert greiða af erlendum skuldum landsins nema það sem við getum og teljum nauðsynlegt hverju sinni. Við getum ekki greitt erlendar skuldir óreiðumanna, til þess skortir okkur afl. Við getum ekki og viljum ekki veðsetja framtíð hins óborna jóðs.

 

Í hundrað áratugi þraukaði þetta fólk sem nú er hnípið við hið yzta haf. Stundum lá við að náttúruhamfarir, drepsóttir  eða hörmungar af mannavöldum myndi slökkva hin síðasta lífsneista á landinu. Kjarkur þjóðarinnar og lífsvilji lá í dvala um dimmar aldir. En hún braust þó áfram í þeirri trú að á morgni nýrrar aldar myndi hún aftur upp rísa og menningin vaxa í lundi nýrra skóga.

 

Skógarnir hafa margfaldast og innviðir þjóðarinnar hafa styrkst. En þjóðin hefur sundrast og misréttið hefur margfaldast. Fáir menn hafa leikið hina mörgu grátt. Þeir hafa tekið eyri ekkjunnar til sín og sóað honum í fjárhættuspilum um víða veröld. Þeir hafa lagt það land sem  við köllum ættjörð okkar undir og tapað. Nú segjast þeir hafa haft til þess fullt umboð og krefja okkar þjóð um að hún standi upp af staðfestum sínum. Leggi aleigu sína og óborinna kynslóða á spilaborð manna sem fæst okkar þekkja. Þjóð sem ekki vissi hvað undir var  lagt eða hvað spilað var um.  Engum einum þegni þjóðar getur verið heimilt að leggja ættjörð sína undir í eiginhagsmunaskyni. Hvorki hjá okkar þjóð né  með öðrum þjóðum. Sá tími er liðinn að einstakir menn geti selt þjóðir og lönd í þrældóm.

 

Tími er því kominn til þess að við rísum upp og segjum nei. Forfeður okkar komu til þessara stranda í leit að betra lífi og frelsi frá skuldheimtumönnum erlendra ríkismanna. Til lítils höfum við þá farið um aldir ef þau  eiga að verða okkar  örlög, að glata landinu okkar og ættarjörð í fánýtum fjárhættuspilum hinna fáu. Þeir skulu  svara til saka  fyrir okkar æðsta dómstól vegna gjörða sinna, sem eru svik við ættjörðina og þjóð sína um leið og þær eru herfileg svik við ykkur sem þeir hafa skaðað í ranglega okkar nafni.

 

Við þá erlendu ríkismenn, sem nú að okkur sækja segjum við :  

 Í fyllingu tímans skulum við reyna að bæta ykkur á einhvern hátt þær sakir sem þér  nú teljið til skuldar hjá okkar þjóð.   En börnin okkar og framtíð þeirra  ganga fyrir því að við látum af hendi lífsbjargir þeirra til ykkar hér og nú.  Við getum það hvorki né megum.  Meira getum við ekki gert á þessari stundu fyrir ykkur sem við biðjum ykkur að virða.

 

Þjóð okkar er ung og starfsfús. Hendur hennar munu skapa auð á ný sem mun verða okkur öllum til gagns. Hrindið ekki okkur hrasandi til falls þér göfugu  herrar.  Reynist okkur heldur vel í raunum okkar og við heitum ykkur vináttu í staðinn. Því að vinátta okkar sem  kúgaðrar og sigraðrar þjóðar myndi heldur ekki reynast ykkur annað en stundarfró sem fyrr en varði hefði  getað snúist í andhverfu sína..

 

Íslenzk þjóð mun lifa áfram við hið yzta haf. Hún er frjáls og á ein sitt stríð og sín opnu sund.  Fyrr en varir mun henni aftur skína sól úr skýjum,  þó svo að þið teljið hana á þessari stundu ekki tæka í samfélag ykkar.

Það sólskin mun einnig ná til ykkar í fyllingu tímans.  Og þá  munuð þið fagna með okkur,  að lengra var ekki gengið á þessum tíma í að beygja okkur hina sigruðu  í svaðið.

 Hver þjóð verður að fá tækifæri til þess að sjá fyrir sér og börnum sínum fyrst áður en hún getur hugað að hag annarra.

Því miður miklu herrar, við getum ekki annað !  "

Þetta var í júlí s.l.

Hefur okkur eitthvað miðað áfram. Höfum við orðið vör við einhverja leiðtoga sem tala okkar máli við aðrar þjóðir ? Er okkar eini málsvari ein kona sem heitir Eva Joly ?

Það er liðið hálft ár síðan þetta var skrifað. Hefur eitthvað breyst ? Hefur verið slegin skjaldborg um heimilin ? Hefur gengið styrkst ?.Hefur verðbólgan minnkað ? Hefur atvinnuleysi raunverulega minnkað ? Hefur verið ráðist í stóriðju-og orkuframkvæmdir? Hefur eitthvað gerst nema meira japl,jarm og fuður ?

Ráðherra vor fer úr landi til að reyna samninga við erlenda ríkismenn. Hann kemur til baka með fleiri hótanir frá þeim um afarkosti okkur til handa. Hann krefst þess enn að við skrifum undir skuldaklafann. Þá getum við fengið meiri lán til að skulda svo hann geti sukkað áfram í sínum ríkisrekstri og handstýrðrar velferðar.

 Ekkert annað en uppgjöf og niðurlæging virðist komast að hjá leiðtogum okkar. Sendimenn okkar liggja marflatir fyrir keisurum Evrópubandlagsins og biðja um brauðmola. Allt er falt fyrir aðgöngumiða að dýrðinni. Uppgjöf og undirlægjuháttur er sameiginlegt stefnumið ríkisstjórnarflokka Íslands. Við þessar aðstæður er ekki nema von að fólk gefist upp í stórum stíl og fari úr landi. Hver er framtíðin sem þessi ríkisstjórn boðar ? Hvað verður afgangs þegar búið er að borga Icesave ?

Vantar okkur ekki enn leiðtoga til að vísa okkur veginn úr myrkrinu ?         


Hags-munir af Hruni !

Leiðari Fréttablaðsins er skrifaður af einhverjum Óla Kristjáni Ármannssyni. Hver sem hann er þá hefur ekki sést grímulausari tillaga um að skrifa undir Icesave en þessi leiðari. Þar segir:

" Ef til vill er ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að vísa lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninga við Breta og Hollendinga einhver sú versta sem tekin hefur verið í íslenskri stjórnmálasögu. Ekki af því þjóðin eigi ekki að fá að kjósa um mikilvæg mál sem varða framtíðarheill hennar, heldur þess dilks sem málið kann að draga á eftir sér með dýpkun kreppu og versnandi samskiptum við aðrar þjóðir. Ófyrirséð niðurstaða ákvörðunarinnar ræður ágæti hennar.

Um leið kann ákvörðuninni að verða hampað síðar, hvort heldur sem það verður af því að ásættanlegri niðurstaða fáist í Icesave-samningana, eða af því að hún leiði af sér úrbætur á stjórnarskránni hvað varðar umgjörð þjóðaratkvæðagreiðslna vegna Icesave kunna að vera nær sannleikanum. Verði lögin felld, þá er enginn samningur til staðar.

......Eftir 15 mánaða þref og niðurstöðu sem meirihluti Alþingis taldi ásættanlega verðum við þá aftur á upphafsreit. Um leið er óvissan algjör um hvort hægt verði að ná betri samningi, viðlíka, eða hvort niðurstaðan verður enn verri. Bretar og Hollendingar gætu eins tekið upp ítrustu kröfur, vefengt neyðarlögin og krafist þess að erlendum reikningseigendum verði bættar innstæður í Landsbankanum að fullu, líkt og gert hafi verið fyrir Íslendinga. Nú er þó ekki gerð krafa um annað en lágmarkstryggingu í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins.

Munurinn á lögunum um Icesave sem samþykkt voru í ágúst og svo þeim sem nú á eftir að staðfesta eða hafna í þjóðaratkvæðagreiðslu virðist tæpast réttlæta þá áhættu sem núverandi farvegur þess felur í sér. "

Svo fellur gríman :

 ...."Getur verið að einhver öfl óttist svo mjög það sem bíður þegar landi verður náð að þau vilji fremur hætta á að sökkva bátnum, eða leggja á úthafið í algjörri óvissu um hvort landi verði náð annars staðar? Ýmsar vangaveltur hafa verið uppi um hver þessi Grýla kunni að vera. Sumir segja að það sé óttinn við að úr skúmaskotum stjórnkerfisins birtist gamlir draugar og upplýst verði um syndir úr stjórnarsamstarfi fyrri ára.

Aðrir velta því fyrir sér hvort slíkur sé ótti forsvarsmanna sértækra hagsmuna við breytingar sem kunni að vera samfara aðild að Evrópusambandinu að útsendarar þeirra vinni allan þann óskunda sem þeir geti og fagni hverjum skugga sem fellur á samskipti Íslands við önnur ríki. Séu þau öfl til í landinu sem best nærast í fákeppni, einangrun og gjaldeyrishöftum er ljóst að þeim einum gagnast að þyrla upp svo miklu moldviðri í kring um Icesave að sem flestir glati áttum. "

Sem sagt, það er Sjálfstæðisflokkurinn sem býr yfir þvílíkum myrkraverkum að hann hefur hagsmuni af því að sökkva landinu. Gömul glæpaverk valda því að fyrri stjórnarflokkarnir vilja meira hrun.

En stöldrum nú aðeins við.

Hverjir hafa meira en beinan hag af áframhaldandi hruni Íslands ?  Hverjir hafa hagsmuni af því að krónan falli lóðbeint niður ? Verðbólgan rjúki upp?

Svarið liggur í augum uppi. Þeir sem skulda mest og hafa um leið kverkatak á verslun með lífsnauðsynjar á Íslandi. Þeir sem gera um leið út fjölmiðla á kostnað almennings með bókhaldsbrellum og skuldaflótta til að draga athyglina frá eigin glæpaverkum með því að reka áróður fyrir áframhaldi hrunsins og beita þeim til þess að keyra landmenn ofaní svaðið með andlitið á undan. Það eru þeir.

Hagar skulda minnst 63 milljarða. Þeir geta ekki borgað með núverandi veltu Haga. Ef krónan helmingast til viðbótar, minnkar skuldin og álagningin fjölgar krónum.  Hlustum ekki á bull um erlend lán sem hækki, þetta verður möndlað fyrir þá og annað eins hefur verið gert. Heildardæmið batnar hraðar hjá þeim sem hrunið verður hraðara. Fólk heldur áfram að verða að kaupa í matinn meðan það getur. 

Með hverjum degi sem eigendur Haga fá að halda veldinu áfram minnkar skuldin í verðbólgunni, verðlag lífsnauðsynjanna hækkar hjá almenningi sem tekur ekki eftir verðbólguskattinum.  Punktur afskriftanna nálgast fyrir Haga sem nota fjölmiðlana til þess að sannfæra almenning um hvað þeir séu góðir og engir séu betri en þeir.

Hversvegna er þetta Hags-mál ekki afgreitt strax í bankakerfinu  þegar skjalborgarheimilin stefna nú beint í uppboð hjá sömu bönkum og vernda Haga og Fréttablaðið gegn skuldheimtumönnum ? Af hverju þurfti bara að kála Árvakri ? Spyrjum Samfylkinguna sem er gerð út f styrkjum frá sömu aðilum og skila þeim ekki til baka eins og Bjarni.

Hags-munir Haga  af Hruni eru augljósir !.  

 


Lán er forsenda þess að fá meira lán !

Pétur Blöndal skrifar eftirfarandi setningu í Mbl. í dag:

"Undarlegt er að heyra þau rök, að til þess að fá lán frá Norðurlandaþjóðunum og AGS verðum við að skrifa undir samninginn um Icesave og axla með því risastórt kúlulán frá Bretum og Hollendingum. Til þess að fá lán þurfum við sem sagt að skrifa upp á lán, sem okkur bæri líklega ekki annars að greiða. Er kannski botninn suður í Borgarfirði?

 

Er ekki ástæða til að horfast í augu við vandann strax, fremur en að velta honum yfir á komandi kynslóðir?

 

Það hefur ekkert með ríkisstjórnarsamstarfið að gera, hvort það höktir áfram eða ekki. Þetta er réttlætismál, sem varðar framtíð þjóðarinnar og tilvistargrundvöll. pebl@mbl.is  "

Er þetta ekki kjarninn í kenningum Steingríms Jóhanns ?

"Til þess að fá lán þurfum við sem sagt að skrifa upp á lán, sem okkur bæri líklega ekki annars að greiða"

Til þess að fá að hafa Visakortið áfram verðum við fyrst að samþykkja Visaraðgreiðslur á kortið. 


St.Eva Íslendinga !

Í kvöld hlustaði ég á viðtal Egils við Evu Joly, Alain Lipitz, Michael Hudson og Elviru Mendes.

Þegar ég lít yfir hvernig okkar Icesave-mál hafa þróast þá get ég ekki annað en fært þessari konu þakkir fyrir hvernig hún, óskyld manneskjan,  hefur tekið til varna fyrir okkar hart leiknu þjóð. Þessi kona hefur tekið upp varnir á heimsvísu með skrifum og málflutningi sem er að opna augu heimsins að eitthvað kunni að liggja á borðinu annað en einhliða sekt Íslands. Til hennar koma nú æ fleiri sterkir liðsmenn, sem taka undir hennar sjónarmið,  miklir menn og góðir.

En það var hún sem hóf upp merkið. Þessi einbeitta kona sem ég hélt fyrst að væri hér bara í eiginhagsmunaskyni. Þar skjátlaðist mér herfilega.Ef við Íslendingar ættum að velja okkur þjóðardýrling núna, svona eins og við veljum okkur þjóðarblóm, þá vildi ég greiða Evu Joly mitt atkvæði.

Við ættum að reyna að ganga í lið með henni í baráttunni fyrir Ísland og óbornar kynslóðir. Hætta að dýrka þessa menn sem rífast eins og krakkar í sandkassa um það hversu sekir við séum eða ekki og kyngja ofan í okkur stolti, gargi og pólitískum þráa.  Reynum að rísa upp eins og menn til að horfast í augu við okkar stríð og okkar opnu sund. Mér finnst ekki liggja mest á að rakka niður það sem við höfum verið að gera til þessa. Reynum heldur að bæta um betur og nota þau tæki sem okkur bjóðast.

Eva Joly hefur umfram aðra vakið okkur til vitundar.Reynum að fylgja hennar fordæmi.

Hún er í mínum augum St.Eva Íslendinga !

 


Húmor í Önnu !

Rakst á þetta á blogginu hennar Önnu Einarsdóttur. Hún er grínhagtug í besta lagi hún Anna. En þetta er samt skarplega hugsað. Norðmenn eiga greiðan aðgang að því að kaupa sér stóraukin áhrif hérlendis ef þeir hugsuðu nú málið. Alveg einstakt tækifæri. En það er bara spurning um trygglyndi Íslendingsins.Er ekki erfitt að treysta á hann  til langframa ? Erum við ekki svo mjög því marki brenndir að vilja eitt í daga, annað á morgun og þriðja hinn daginn. Er hviklyndi okkar þjóðareinkenni sem flaut á land með pólitísku flóttamönnunum frá Noregi þeim Ingólfi og Hjörleif?

Anna segir:

 

"Vi skaper ett land med 6 landsdeler: Oslofjord-området, Innlandet, Sørlandet, Vestlandet, Midt-Norge, Nord-Norge og Island.Island er fulle av ressurser både til lands og til havs og det passer godt med våre kunnskaper og næringer. Og vi har masse penger som nettopp kunne brukes til denne fantastiske investeringen til spottpris nå. Så lar vi islandingene stemme over det, og vi kommer til å få et rungende JA! Jeg gjentar: den beste investeringen Norge noensinne får sjansen til å gjøre.

.
norge

.

Vennlig hilsen,

Anna Einarsdóttir
Islandsk Afdölum nummer 89,
Norge. ¨"

Húmor í henni Önnu !


Tími upphrópana er liðinn !

Ég horfði á Hrafnaþing í kvöld þar sem Jóna Hákon Magnússon, Helgi Ágústsson, Hrafninn og Hallur töluðu saman um Icesave málin.

Margt spaklegt var þarna sagt. Sumum var meira niðri fyrir en öðrum. En yfirburðir Helga Ágústssonar í reynslu, þekkingu, sögulegum bakgrunni, þroska og yfirvegun voru þvílíkir, að mig sundlað við þeirri tilhugsun hversvegna þjóðin hefði ekki fengið að njóta hans ráða á örlagastundu en sendi Svavar Gestsson í hans stað.

Þessum manni hefði ég einum falið forsjá minna mála gagnvart hverjum sem er. Ég held að hann myndi standa Kínverjum á sporði í hverri rimmu.

Um samskipti við umheiminn vegna Icesave sagði Helgi:  "Besti tíminn til að gróðursetja tré var fyrir tuttugu árum. Næst besti tíminn til þess er í dag." Þannig sér hann málflutning Íslendinga í Icesave deilunni.

Hinir viðmælendurnir höfðu allir nægan þroska til að steinþagna þegar Helgi vildi segja eitthvað af yfirvegaðri prúðmennsku. Svo sem :" Utanríkismál snúast um hagsmuni. Þú verður að leiða gagnaðilanum það fyrir sjónir að hans hagsmunir felist í því að semja." "Samningar fara ekki fram við borðið heldur á bak við gardínur og á bak við sófana. " hafði Helgi eftir miklum breskum diplomat. Bak við orðin mátti gruna mat á uppskerunni af umræðum Alþingis um lögin góðu, sem nú eru til umfjöllunar. Og augnabrúnahreyfingar einar lýstu því hvernig mætti fara að annars. Slíkur diplómat þarf ekki að nota orð til að menn skilji.

Helgi er veðraður í miklum sjóum landhelgisstríðanna og þrautþekkir samningatækni. Það þarf ekki að sminka hann til þess að menn sjái að þarna fer yfirburðasamningamaður og persóna sem tekið er eftir. Við Íslendingar stöndum í þakkarskuld við hann fyrir þátt hans í lausnum landhelgisstríðanna.

Ég stend við það sem ég skrifaði hér á undan: Kælum þetta Icesave mál aðeins.  Burt með það úr þjóðaratkvæði og múgæsingum. Forsteinn var frábær í breska sjónvarpinu og á blaðamannafundinum og sýndi að á meðal Íslendinga er líka heimsborgara að finna innan um alþýðuna. Íslensk alþýðulegheit er ekki endilega sá háttur sem hentar í milliríkjadeilum. 

Fáum svo Helga Ágústsson til að koma að málinu með þeim Steingrími og Jóhönnu sem hafa nú loksins Jón Hákon Magnússon sér við hlið,- traustan mann mikilla sæva og orrustuglamms. 

Við myndum ekki ná verri samningi um Icesave en við nú höfum. Helgi Ágústsson myndi áreiðanlega reyna sitt ýtrasta til þess.

 Ég held að þjóðinni bráðliggi á reynslu og færni í þessu máli. NÚNA !

Tími upphrópana er liðinn.


Kælum málið.

Er ekki rétt að kæla þetta Icesave mál niður. Segja Bretum eða frekar Hollendingum sem eru líklega æstari, að slappa af.

Þeir eru með þennan glæsilega Svavarssamning í gildi og ríkisábyrgðina frá í sumar. Geta þeir ekki búið við það í eitt ár ? Plís John Bull Brown.

Við hættum við þjóðaratkvæði og frekari æsingar. Drögum lögin til baka. Kælum málið.

Við getum (may)sent beiðni um nýja samninga seinna.

Kælum málið.


Aðfluttir útlendingar + brottfluttir Íslendingar= ?

 

Getur það verið rétt að tölur um brottflutta Íslendinga og aðflutta séu villandi ?

Getur verið að það sé rétt að fyrir hvert þúsund Íslendinga sem flytja nú úr landi komi inn fleiri hundruð aðfluttra og af þeim séu mun fleiri útlendingar en Íslendingar ? Útlendingarnir flytjist hingað meðal annars til þess að setjast í heilbrigðiskerfið okkar ?  Láta framkvæma hér dýrar læknisaðgerðir sem þeir fá ekki í sínum heimalöndum ? Þessvegna sé ekki hægt að skera niður á spítölunum ? Flytji stöðugt fleiri útlendingar inn í landið og Íslendingar út, þá er skipt um þjóð í landinu svona hægt og bítandi. Eða vitum við eitthvað um fjölda útlendinga hér á landi eftir Schengen ?

Þessir útlendingar fái sér ekki endilega vinnu hérna en lifa einhvernveginn af landinu ?

Brottfluttir Íslendingar hljóta að hafa talsverð áhrif til lækkunar skráðs atvinnuleysis á landinu. Ég er ekki klár á því hvernig nýaðfluttir útlendingar eru taldir í því kerfi. Brottfluttir Íslendingar +atvinnulausir Íslendingar =  ? 

Aðfluttir útlendingar + brottfluttir Íslendingar=  ?


Keisarabundin þingræðisstjórn ?

Í Danmörku ríkir þingræðisbundin konungsstjórn. Líka á Bretlandi. Þingið ræður og konungurinn staðfestir. Hann lætur fjölskipað þing þjóðarinnar, þar sem einn maður hefur eitt atkvæði, skera úr um hvaða lög skuli gilda.

Á Íslandi hefur þingið tillögurétt en keisarinn á Bessastöðum ræður því endanlega hvað skulu lög vera og hvað ekki. Ef Alþingi væri skipað mönnum sem væru kjörnir af þessari sömu þjóð þannig, að sérhver þeirra hefði jafnmörg atkvæði að baki sér, þá mætti spyrja hvenær slík gjá gæti myndast milli þings og þjóðar að nauðsynlegt væri fyrir keisarann að láta þjóðina greiða atkvæði um málið ? Þjóðarviljinn myndi endurspeglast í þingmönnum sjálfum, en ekki ráðast af þeim landflæmum sem þeir teldu sig vera fulltrúa fyrir.

Alþingismenn hafa sumir þrefalt færri atkvæði á bak við sig en næsti þingmaður. Gefur það ekki auga leið að slíku þingi geta verið mislagðar hendur ? Getur ekki líka verið að keisarinn, sem hefur líka  minnihluta kjósenda á bak við sig, geti ekki skynjað þarfir þegna sinna  jafnt ?

Við höfðum lengi vel erfðaeinvaldskonung sem studdist við ráðgjöf einhverskonar þings þar sem þó aðeins útvaldir sátu á. Allt gekk þetta einhvernvegin en samt var þessu nú breytt.

Nú tölum við um okkur sem lýðræðisþjóð en vitum samt að við erum það engan veginn. Menn eru ekki jafnir að atkvæðisrétti á landsvísu til þings. Aðeins í kjöri til sveitarstjórna og til embættis keisara  Íslands, er atkvæðisréttur jafn. Og þegar fleiri frambjóðendur en tveir eða þrír eru til keisaraembættis, þá er ákaflega lítil líkindi til að þeir sem tapa séu ánægðir.

Meðan menn telja sér þetta meinalaust þá láta þeir kyrrt liggja. En þegar þetta skiptir máli þá fer tónninn að breytast. Því eru líkindi til að menn sætti sig ekki við óbreytt ástand í stjórnkerfi landsins. Ólafur Mikli, núverandi keisari Íslands, hlýtur núna að hafa orðið til þess að menn fari að hugsa um stjórnarskrárbreytingar sem lengi er búið að hjala um en aldrei verið gert neitt í.

Fókl hlýtur að fara að hugsa meira um grunnstoðir lýðveldisins Íslands.  Dögum keisarabundinnar þingræðisstjórnar á Íslandi  hlýtur því að fara fækkandi.


Leikflétta kommatittanna!

Auðvitað voru  þeir Steingrímur og Ólafur búnir að semja um Icesavelögin fyrirfram.

Ólafur fékk tækifæri á að slá sig til riddara hjá sextíuþúsundkallinum og komast hjá því að vera dreittur inni á Bessastöðum af mótmælalýð með rauð blys. Steingrímur fær að draga lögin til baka og halda lífi í stjórninni,  Sparar milljónir með því að sleppa þjóðaratkvæðinu, sem er auðvitað vita tilgangslaust. 

Svavarssamningurinn er jafngildur og glæsilegur hvað sem fyrirvörunum frá í sumar líður. Darling er líka pollrólegur með hann í höndunum þó Íslendingar deili um eitthvert ríkisábyrgðaform. Allt í þessu fína beggja megin hafsins.

Það bíður seinni ríkisstjórna bæði í Bretlandi og á Íslandi að taka málið upp aftur. Fólkið hefur verið haft að fíflum eins og fyrri daginn þegar þessir kallar eiga í hlut.

Lagleg leikflétta kommatittanna!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband