Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Sigurvegarar vikunnar

eru tveir. Sá fyrri var Silvio Berlusconi. Gefum okkur að blóðhiti skipti máli í eðli þjóða, þá held ég að Ítalir séu tilbúnir að fyrirgefa duglegum kvennabósa meira en öðrum mönnum. Byggi þetta mat á því hvernig Frakkar tóku fréttunum um að Mitterand hefði átt hjákonu.

Sá seinni er Jón Ásgeir. Hnausþykkt og ískalt blóðið í Íslendingum hreyfðist samt ekki neitt þó að þessi afreksmaður hefði sigur í New Yoirk. Nú er eiginlega málið afgreitt því íslenskt réttarkerfi ræður ekki við  nema " innbrot í sjoppur." Loksins getur þessi afreksmaður, sem Jón Ásgeir er hvað sem hver segir þó hann sé ekki viðurkenndur glaumgosi né kvennagul, um nýfrjálst höfuð strokið. Hersveit lögfræðinga hans hefur þegar sýnt hvernig hún handleikur íslenska dómstóla svo við skulum fagna þessu langa hléi sem nú verður á Baugsmálum með Jóni Ásgeiri.   

Ég vorkenni hinsvegar vinum mínum hjá Price Waterhouse Coopers endurskoðunarskrifstofu. Þeir hafa verið þvílíkt í fjölmiðlabaði vegna þessa máls, að það verður leitun að því fjölmiðlafólki sem treystir sér til að fjalla um endurskoðendur og störf þeirra yfirleitt af yfirvegun og skynsemi. Það er oft erfitt að fást við Alþingi götunnar eins og menn þekkja. En tíminn læknar líka öll sár um síðir og það sem heitast brennur núna er gleymt á morgun eða hinn.

En á meðan þá gleðjumst við ef einhverjum gengur vel, en hlökkum auðvitað áfram yfir óförum annarra. Þannig er okkar íslenska blóð nú einu sinni.


Farsinn flýgur áfram

í  flokknum fagurgræna.  Frammámenn þar eru feikna mikið uppteknir við að vera svo góðir og ábyrgir,þeir megi ekkert aumt sjá, séu vinir fólksins og svo framvegis.  Svo fara þeir út af fundunum sínum og froða í sig öllu sem Steingrímur Jóhann færir þeim að gleypa.

Taka gagnrýnislaust  við fyrirmælum ESA um að banna fosfat í  saltfiskinn okkar í boði Samfylkingarinnar.  Óðfúsir að skrifa undir Icesave fyrir jól vegna þess að annars fáum við ekki aðgang að EU né  meiri lán hjá AGS. Auknar skuldir auka lánshæfi þjóðarinnar  eins og allir vita. 

Lilja Mósesdóttir segist ekki vilja niðurskurð hér og ekki þar. Jóhanna sendir henni tóninn og kallar hana Lilju Mós.  Lilja þegir hinsvegar um tekjuhliðina.   Lilja þegir um Icesave.  Lilja þegir um vegatollana. Lilja þegir um gjaldeyrishöftin. Lilja þegir um lyklafrumvarpið. Lilja þegir við afgreiðslu fjárlganna.

Atli Gíslason virðist hinsvegar svo ánægður með að hafa getað þóknast Steingrími leiðtoga sínum í því að koma Geir Haarde í gapastokkinn, að annað geti beðið.   Fleiri fundir í VG fresta vandanum.

Vonandi lendir Steingrímur ekki í Landsdómi sjálfur vegna Icesave. Hann gæti grenjað með Guðmundi Andra Thorssyni yfir því að hafa viljað  samþykkja Icesave 1.  Nú vill hann hespa af Icesave 3 fyrir jól svo að við komumst í Evrópusambandið.  Sem fyrr er allt illt Sjálfstæðisflokknum að kenna í augum  Guðmundar Andra sem skrifar reglulega rógsgreinar um flokkinn í Fréttablaðið fyrir ríkisstjórnina og fær væntanlega ritlaun fyrir.

Hvernig lítur svo næsta framtíð þjóðarinnar út nú á Halycon dögum?  Svona fjórar fjölskyldur flytja úr landi á dag.  Indjánakonur koma í staðinn með börnin sín.  Læknar er löngu hættir að fást í lausar stöður. Guðmundur í Rafiðn brýnir busann og flugmumferðarstjórar bíða flugtaks. PISA einkuninn er sögð  hækkandi nema bara ekki í reikningi.

Fréttirnar fljúga en fátt gerist  nema  fimm sinnum fimmtíu nefndir funda stíft á vegum flokksins fölgræna og fjöldi skilanefndarmanna uppá tuttuguþúsund á tímann er óbreyttur við að skipta upp bönkunum.  Sósíalistinn í Seðlabankanum lofar okkur gjaldeyrishöftum til eilífðarnóns.

Og það versta virðist vera að fólkið á götunni virðist vera að gefast upp fyrir Icesave og ber við þreytu. En að vísu voru viðmælendurnir valdir af Ríkissjónvarpinu svo að þetta þarf ekki endilega vera þjóðarviljinn.

En farsinn heldur áfram.

 

 

 


Veggjöld hér en ekki þar?

Vegagjörðin Ríkisins ætlar að fjármagna vegaframkvæmdir hér sunnanlands með veggjöldum. Þetta er þekkt í Bandaríkjunum, þar sem víða eru innheimtir brautartollar. En þeir haga því svoleiðis til að að fólki er heimilar hjáleiðir sem ekkert kosta. En hérna er öllu líklegra  að íslenskur embættishroki muni þvergirða einu leiðina frá Reykjavík til Suðurlands.

Á meðan kostar ekkert í Vestfjarðagöng eða um Héðinsfjörð. Og skyldi verða rukkað í Vaðlaheiðargöngum?

Er líklegt að það verði sama hér og þar?. 

 


http://en.wikipedia.org/wiki/Federal_Deposit_Insurance_Corporation

er ágæt lesning fyrir þá sem nú sækja Geir H. Haarde fyrir Landsdómi fyrir þær sakir að hafa ekki getað forðað Íslandi  frá hruninu. Hann reyndi þó sannarlega að gera sitt besta til að forða okkur allsherjar upplausn og skelfingu. Nú þykist hver kommatitturinn af öðrum  vita betur

"Ég lofa þér því..."

"Ég lofa þér því að það er í sjónmáli að hann, og hans fólk, landi glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur,« sagði Steingrímur J. Sigfússon, um samningaviðræður Svavars Gestssonar við Breta og Hollendinga um lausn Icesave-deilunnar, í viðtali við kosningasjónvarp mbl.is. Síðan hann lét ummælin falla, hinn 23. mars 2009, hafa tvennir samningar verið kynntir og Alþingi samþykkt annan. Þeim samningi var hafnað með fádæma afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr á þessu ári."

Ég velti því fyrir mér hversvegna þarf að semja núna og fara að borga vexti ef verið getur að það verði milljarðar í afgang þegar búið er að gera upp þrotabúi glæpafyrirtækis þess sem kallaði sig  Landsbankinn.

Hversvegna er ekki fyrst rukkað inn og síðan athugað hvað útaf stendur?Á meðan getum við glatt okkur við örugga forystu hins þrautreynda fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar og félaga Svavars.

"Ég lofa þér því...." Það bregst ekkert það sem þessir menn lofa.


Ný vörn í Icesave

er kynnt fyrir þjóðinni í gær og í dag.

Landsbankinn var alls ekki löglegur banki þegar hann hóf að svíkja út fé í útlöndum. Íslenskir glæpamenn í fínum fötum gerðu samsæri um að setja svikamylluna af stað undi fölsku flaggi banka með flottu nafni. Þeir vissu beinlínis hvað þeir voru að gera og frömdu glæpinn með einbeittum brotavilja.  Bankinn hefði verið stöðvaður 2007 ef hann hefði ekki beitt lygum of fölsunum um eiginfjárgrunn sinn. Landsbankinn var ekki banki heldur skipulögð glæpastarfsemi.

Getur þjóð eins og Íslendingar borið samábyrgð á verkum íslenskra glæpamanna? Eigum við að borga þegar slíkir brjótast inn erlendis og stela og svíkja?

Mér finnst að ný vörn hafi borist okkur í Icesave deilunni úr óvæntri átt. Íslenskir krimmar eru ábyrgir fyrir Icesave frá upphafi til enda. Ekki þjóðin.


Hvaða Samfylkingu, hvaða Sjálfstæðisflokk

er Ingólfur Margeirsson að fjalla um í rógskrifum sínum í Baugstíðindi í dag. 

Ingólfur þessi er haldinn þeirri barnalegu firru eins og margir hælbítar Sjálfstæðisflokksins, að flokkurinn sé einver Sfinx í formi steinsteypukassans sem heitir Valhöll. Að steintröllið sé óbreytanleg myndastytta af Davíð Oddssyni sem hafi verið haldinn einhverri veiki sem Ingólfur kallar nýfrjálshyggju. Samfylkingin er líka svoleiðis apparat í augum Ingólfs, einhver píramídi sem getur beiðst afsökunar og síðan þrumið um eilífð sem eilífur andstæðingur Sjálfstæðisflokksins ef þá ekki hækja.

Í rauninni eru skoðanir Ingólfs á stjórnmálaflokkum svo fjarstæðar að varla tekur því að svara þeim. Stjórnmálaflokkar eru aðeins fólkið sem í þeim er þá stundina. Rétt eins og KR eða Fram. Davíð var formaður í Sjálfstæðisflokknum af því að flokksmennirnir kusu hann. Hann tengdist samt ekki Engeyjarættinni beinlínis þó einstakir fjölskyldumeðlimir hafi komið auga á kosti mannsins og stutt hann til góðra verka.

Flokkur Ólafs Thors var annað fólk en það sem nú mætir á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það er bara sjálfstæðisstefnan sem hefur ekkert breyst. Um hana sameinast flokksmenn. Öfugt við hlaupastrákaflokk eins og Samfylkinguna, sem enginn veit hvaðan komu né hvert þeir eru að fara. Þeir hafa enga grunnstefnu nema að koma sjálfum sér  á opinberar jötur.  Ef þær eru girnilegri í útlöndum þá leggja þeir um þessar mundir allt í sölurnar fyrir að komast í þær. Það er alls ekki víst að Emil Jónsson eða Jón Baldvinsson hefði stutt þá vegferð  þó að Össur, Jóhanna og Steingrímur  geri það.

Á hvaða tíma lifir þessi Ingólfur?


Hvaða tilkall

eiga kvótahafarnir í alla aukningu fiskveiðiheimilda?

 

Handhafar fiskveiðiheimilda hafa fengið sinn hlut úr öllum veiðiheimildum í aldarfjórðung.Veiðiheimildir áttu að takmarka aflann svo að fiskistofnarnir byggðust upp. Síðan yrði uppskeruhátíð sem heimildarhafarnir ættu að njóta vegna þess að fara eftir kerfinu allan tímann.

 

Árin liðu frá upphafinu og mestan tímann minnka heimildirnar vegna þess að Hafró er svartsýn á að fiskistofnarnir séu í vexti af einhverjum ástæðum. Menn deila um hvað hafi brugðist í vísindunum. Einn segir umframafli, annar brottkast, þriðji ofveiði, týndir hrygningarstofnar, ofmat stofntærða? Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa hangið á því sem grundvallarstefnu að þetta kerfi sé það besta í heimi. Því megi ekki breyta.

 

Morgunblaðið ver nú kvótakerfið af skiljanlegum ástæðum sem það gerði ekki áður. Ef það er staðreynd að fiskistofnar séu komnir niður á einhvern botn sem hefur verið langur og flatur með þessu kerfi eftir aldarfjórðung,hefur kerfið þá sannað sig? Er þá einhver ástæða til þess að halda því áfram á þeim forsendum?

 

Svo segja þeir líka  að þjóðin eigi fiskinn en ekki bankar eða skuldsettir útgerðarmenn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi að grunnstefnu. Hvernig getur hann þá ríghaldið  í miðstýrt haftakerfi? Ef reynt er að brjótast út úr þessum lás og opna glufur, þá verður allt vitlaust.

 

Útgerðarmennirnir eru búnir að eiga réttinn í 25 ár. Nú í mörg ár hefur aflinn verið á sama lága rólinu. Þeir sem hafa keypt réttinn til þess sem er í dag ættu því að mega halda honum að skaðlausu.  En aukningu veiðiheimilda mætti hinsvegar ráðstafa á markaði.

Gengur tilkall einstakra manna til alls óveidds fisks í sjónum lengur upp?


Samfylkingin biður afsökunar

á þeim mistökum sem hún ber ábyrgð á í aðdraganda hrunsins." Fjallað er um þennan atburð í leiðara Baugstíðinda í dag. Þar segir ritstjórinn m.a.

"Geir H. Haarde er einn ákærður fyrir Landsdómi en forystumenn Samfylkingarinnar sleppa við slíka ákæru. Það er yfirborðsmennska og tvískinnungur af þessu tagi, sem stendur Samfylkingunni fyrir þrifum."Það er svo að skilja á framhaldi pistilsins, að Framsóknarflokkurinn  eigi eftir að bera fram afsökunarbeiðni sína þar sem hinir flokkarnir hafi þegar beðist afsökunar.

Furðulegur spuni er þetta tal um að stjórnmálaflokkar eigi að fara að dæmi Sturlu Sighvatssonar að láta hýða sig fyrir höfuðkirkjum. Er það til þess að vera klár til að syndga á ný ?  Mér finnst ég ekki bera ábyrgð á mistökum í starfi Sjálfstæðisflokksins , hvað þá Framsóknarflokksins, þó að forystumönnum hafi verið mislagðar hendur í einstökum málum. Flokkar eru myndaðir um grundvallaratriði og heimspeki  án skuldbindinga um efndir. Hver maður situr að lokum uppi með sjálfan sig og afleiðingar eigin heimsku og trúgirni.

Svo til hvers er Samfylkingin að biðja mig afsökunar? Í mínum augum er þetta ógeðfelldur flokkur sem höfðar ekki til mín og ég gef því ekkert fyrir hvað segir.  Sama fólkið, sem grætur eins og hjörð af grænum krókódílum uppi á leiksviði undir forsöng þess gráhærðasta, snertir mig ekki neitt. Ég treysti því ekki neitt betur en ég gerði þá. Hvað þá að mér geðjist að yfirlýstum áformum þess eða afrekum frá hruni.

 Nema það,  að þetta sama fólk  ætlar nú að taka landið mitt og mig með því og selja það í hendur annarra þjóða.  Var þessi afsökunarbeiðni til þess fallin núna að sannfæra mig um það,  að einmitt þessu sama fólki, sem skýrir mér nú opinberlega frá heimsku sinni í hruninu,  eigi ég að treysta núna fyrir framtíð minni og framtíð lands og þjóðar? Hversu vitlaust getur fólk annars orðið?

Það breytir engu fyrir mig hvort Samfylkingin fari með iðrunarsálma og strýki sjálfa sig í sinni  höfuðkirkju.  Inntakið breytist ekkert frekar en hjá Sturlu Sighvatssyni.   Krókódílatár hafa aldrei þótt sannfærandi.  

 


Dauðastríð Evrunnar

er hafið. 50 Þjóðverjar hafa höfðað mál fyrir stjórnlagadómstólnum þar í landi vegna þess að þeir vilja ekki að Þjóðverjar taki á sig að borga erlendar skuldir óreiðumanna. Þjóðverjar skiptast nú í tvær jafnar fylkingar að því sagt er um afstöðu til þess að taka upp gamla DM. Jafnvel Angela hefur hreyft þessari spurningu.

Hvað skeður fyrir Evruna ef Þjóðverjar tilkynna um brotthvarf úr myntbandalaginu? Það er nokkuð morgunljóst að það mun verða Evrópu til mikillar blessunar sem þá verður skyndilega orðin samkeppnishæfari á heimsmarkaði. Evran hefur nú engar forsendur til þess að vera hærra skráð en Bandaríkjadalur.

Ný Evra strax án Þýskalands er heimsnauðsyn. Dauðastríð Evrunnar er þegar orðið of langt og kvalafullt.

Útförin verður auglýst síðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband