er viðfangsefni Júlíusar Sólnes fil. lic. verkfræðings og prófessors emeritus í merkri grein í blaðinu Sámi fóstra sem er nýkomið út.
Þau leiðu mistök urðu í prentuninni að línurit datt út sem nauðsynlegt er að skoða í samhengi við textann. Það er ekki hægt að breyta neinu í blaði sem komið er út. En til þess að klóra í bakkann þá birtir ábyrgðarmaðurinn og útgefandinn, www,samurfostri.is greinina hér með línuritinu í þeim tilgangi að einhverjir lesendur geti áttað sig til fulls á hvað Júlíus er að segja:
"Úrgangsmál
Samkvæmt síðustu tölum Hagstofu Íslands var heildarúrgangur á Íslandi 2017 1.400.863 tonn, en var árið áður (2016) 1.067.313 tonn, hafði þá í fyrsta sinn farið yfir eina miljón tonna. Þetta er mikil aukning milli ára og nemur 31%. Samkvæmt sundurliðun úrgangs eftir efnisflokkum og hvernig honum var fargað árið 2015, en þá var heildarmagn 850.152 tonn, fóru 175.762 tonn til urðunar, 12.469 tonnum var brennt án orkunýtingar og 3.358 tonnum brennt með einhverri orkunýtingu.
Gera má ráð fyrir, að hlutfall hvers úrgangsflokks hafi lítið breytzt milli ára, þótt meiri áherzla sé nú lögð á endurvinnslu og endurnýtingu. Því er hægt að reikna með, að urðun úrgangs árið 2017 hafi verið yfir 200 þúsund tonnum. Nú er svo komið, að urðunarstöðum fækkar mjög - enginn vill hafa úrgang annarra í bakgarði sínum. Því hafa aðilar, sem taka við úrgangi af sveitarfélögum víðs vegar um land, hafið að flytja einhvern hluta til brennslu í nágrannalöndum okkar, Noregi og Svíþjóð. Sú leið er vart boðleg, ef horft er til lengri framtíðar. Kolefnisspor slíkra flutninga er of mikið.
Það er stefna stjórnvalda, að urðun skuli smám saman hætt, enda segja nýjar reglur Evrópusambandsins, að frá og með árinu 2030 megi ekki urða meira en 10% af heildarúrgangi. Er með því verið að taka tillit til landanna í Suður-Evrópu, þar sem sorphirðumál eru ekki í eins góðum farvegi og í Norður-Evrópu.
Mynd 1 sýnir sorpmagn í öllum löndum hins evrópska efnahagssvæðis og hvernig honum var fargað.
Þegar myndin er skoðuð, vekur það athygli, að urðun sorps hefur nánast verið lögð af á hinum Norðurlöndunum, Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi. Það virðist gerast samfara því, að þessi lönd hafa komið sér upp fullkomnum sorporkustöðvum, þar sem sorpi er brennt við kjöraðstæður og miklar mengunarvarnir viðhafðar. Stöðvarnar framleiða mikla orku, gróft reiknað getur stöð sem brennir 100.000 tonnum af sorpi á ári framleitt 10 MW, eða um 70 GW-stundir af rafmagni og sem svarar 25 MW af heitu vatni, er nota má til húshitunar og til starfsemi iðnfyrirtækja. Sjá má, að staða Íslands er ekki góð. Mynd 1 sýnir, að við erum í hópi Austur-evrópuþjóða hvað sorphirðu áhrærir, nánast eins og Búlgaría.
Urðun sorps í Norðurevrópuríkjunum, Hollandi, Þýzkalandi, Belgíu, Austurríki og Lúxembúrg, er einnig mjög lítil, enda lögð mikil áherzla á sorpbrennslu, þótt mikið átak sé í gangi í þessum löndum að auka endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs.
Í öllum löndum, sem hafa náð þeim árangri, að urðun sorps er lítil sem engin, hafa verð byggðar fullkomnar sorporkustöðvar, sem brenna yfir helmingi alls úrgangs er fellur til í landinu. Nærri 500 slíkar stöðvar er að finna á Evrópska efnahagssvæðinu. Þær hafa náið samstarf innan samtaka sorporkustöðva í Evrópu (CEWEP, www.cewep.org). Mynd 1 er fengin frá CEWEP.
Ein nýjasta sorporkustöð, sem byggð hefur verið í þessum löndum, er Amager bakke orkuverið í Kaupmannahöfn, ekki langt frá nýja Óperuhúsinu (Mynd 2). Hún er talin flaggskip slíkra stöðva í Evrópu, búin mjög fullkomnum mengunarvörnum. Ekki gekk þó átakalaust að byggja hana, og fór stofnkostnaður verulega fram úr áætlun. Bandarísk-danska fyrirtækið Vølund A/S sá um brennslueininguna. Tæknimenn þess segja, að alútboð henti bezt fyrir svona verkefni. Gerð Amager bakke stöðvarinnar varboðin út í ótal smáum verkpökkum, og bar hver verktaki aðeins ábyrgð á sínum pakka. Samræming framkvæmda snerist upp í eina allsherjar martröð, og rakst hver á annars horn. Þá setti skíðabrekkan á þaki stöðvarinnar og miklar kröfur til útlits strik í reikninginn.
Stofnkostnaður stöðvarinn fór því yfir fjóra milljarða danskar krónur, sem hefur vakið mikar deilur um hvernig staðið var að framkvæmdinni í Danmörku. Samkvæmt ársreikningi 2018 fyrir stöðina kemur
fram, að hún tók á móti 443.000 tonnum af úrgangi til brennslu. Þar af voru 30 þúsund tonn flutt inn, aðallega frá Bretlandi, 39 þúsund tonn komu frá jarðgerðarstöðvum, sem breyta lífrænum úrgangi í bíómassa og afgangurinn vegna sorpmóttöku frá þeim fimm sveitarfélögum er eiga stöðina, með Kaupmannahöfn í broddi fylkingar. Það er nefnilega svo, að allri endurvinnslu fylgir töluverður úrgangur, sem annaðhvort verður að urða eða brenna.
Amager bakke stöðin framleiddi árið 2018 samtals 1.295 Gígawattstundir (GWh) af orku. Hún skiptist þannig, að rafmagnsframleiðsla var 135 GWh, framleiðsla á heitu vatni 1.090 GWh og 39 GWh voru nýtt af stöðinni sjálfri. Framleiðsla á heitu vatni nægði til að hita upp um 25 þúsund íbúðir.
Raforkuverð frá stöðinni var í samræmi við markaðsverð í Kaupmannahöfn 2018, eða að jafnaði 344 DKK/MWh. Það svarar til þess, að kílówattstundin hafi kostað 5,9 íslenzkar kónur. Heita vatnið var selt á 89 DKK/GigaJoule, sem samsvarar því, að kílówattstundin hafi kostað 5,5 íslenzkar krónur.
Eftir endurfjámögnun stöðvarinnar, virðist reksturinn kominn í eðlilegt horf. Er nú verið að undirbúa að hreinsa allt koltvíoxíð úr reyk frá stöðinni, sem að öðru leyti er mest vatnsgufa, þar sem nær öll (>99%) spillefni hafa verið hreinsuð burt. Verður sett upp svo-kallað amínsýrukerfi, sem skolar allt CO2 úr reyknum og skilar að lokum hreinu samþjöppuðu koltvíoxíði, sem nota má í iðnaði eða dæla niður í heppilegan viðtaka, t.d. basaltberg.
Slík amínsýruþvottakerfi fyrir t.d. kolaorkuver hafa verið þróuð og reynd víða um heim síðustu 20 ár eða svo. Twence sorporkustöðin í Hollandi hefur komið upp slíkum búnaði og hreinsar allt koltvíoxíð úr reyknum. Er því umbreytt í matarsóda (natríum bíkarbónat). Það má því segja, vart sé hægt að farga sorpi á umhverfisvænari hátt.
Fyrir alþingi liggja nú tvær þingsályktunartillögur, sem tengjast sorphirðu. Önnur kallar eftir því, að umhverfisráðherra láti kanna hagkvæmni þess að byggja 80 til 100 þúsund tonn fullkomna sorporkustöð einhvers staðar á landinu, sem geti tekið við öllu því sorpi, sem annars færi til urðunar. Hin tillagan snýr að flutningi sorps frá öllu landinu til eins staðar (þar sem sorporkustöðin er) með strandskipum. Er lagt til, að umhverfisrápherra og samgönguráðherra láti kanna hagkvæmni þess, að smíðuð verði tvö vistvæn og sérútbúin strandflutningaskip, sem geti flutt sorpgáma og venjulega vöruflutningagáma ásamt olíum frá um 25 höfnum umhverfis landið. Skipin hafi mikla dráttargetu og geti um leið nýtzt sem björgunarskip, séu m.a. útbúin með þyrlupalli. Ef yrði alvarlegt sjóslys við Íslands, t.d. skemmtiferðaskip með þúsundum farþega innanborðs lenti í sjávarháska, er ekkert skip til á Íslandi er gæti komið til björgunar.
Það hefur orðið vart við þá hugsun hér á landi, að bygging sorporkustöðvar slíkt sé óþarfi. Fljótlega verði allt sorp eða úrgangur af hverju tagi endurunnin eða endurnýttur. Það verði einfaldlega enginn afgangur.
Tilraun til þess að flokka og endurvinna allt sorp til botns hefur farið fram á Borgundarhólmi nokkur undanfarin ár. Þar var lítil sorpbrennslustöð í líkingu við þær sem voru byggðar á Íslandi á tíunda áratug síðustu aldar. Afar ófullkomin stöð og mikill mengunarvaldur. Henni var lokað og í staðinn ákveðið að flokka, endurnýta og endurvinna allt sorp. Ekkert átti að vera eftir. Allir íbúar Borgundarhólms tóku heils hugar þátt í verkefninu.
Nú eftir nokkur ár er ástand mála þannig, að 80% sorps á Borgundarhólmi er endurnýtt eða endurunnið, afgangurinn er sendur til Kaupmannahafnar til brennslu í Amager bakke stöðinni.
Ella Stengler sérfræðingur hjá CEWEP kom hingað til lands í fyrra og hélt erindi um sorphirðumál í Evrópu og brennslu úrgangs í sorporkustöðvum. Hún kannaðist við þá afstöðu stjórnmálamanna, að allt sorp skuli endurunnið eða endurnýtt, og því verði byggingu fleiri sorporkustöðva í Evrópu hætt. Ella segir stjórnmálamenn lifa í einhverjum draumheimi, þegar kemur að sorphirðumálum og endurvinnslu og -nýtingu. Þeir neiti einfaldlega að horfast í augu við staðreyndir. Það er svo sem ekkert nýtt."
Ég vona að þetta klór mitt í bakkann hjálpi einhverjum að nema merkan boðskap Júlíusar Sólnes um úrbætur í íslenskum úrgangsmálum sem ekki er vanþörf á að almenningur láti sig varða.